Nye Hyl? Nýhil og samtímaljóðlist

IMG_6027
Forsíða Nordisk Litteratur árið 2006.

(Birtist upphaflega í Nordisk Litteratur árið 2006 á dönsku og ensku en hefur ekki birst áður á íslensku. Textinn hér að neðan var því þýddur á sínum tíma)

Íslensk samtímaljóðlist er ömurleg! Hún er yfirleitt stöðnuð, tilgerðarleg og föst í módernískum formúlum þar sem myndhverfðum klisjum er stillt saman svo úr verður formúleraður „prjónaskapur“. Afgangurinn er „dundur“, þ.e. persónulegur, tilfinningalegur tækifærisskáldskapur sem einkennist af einhvers konar hreinsun þar sem tilfinningum er hleypt í ljóðform.

Einhvernveginn þannig má draga saman gagnrýni Eiríks Arnar Norðdahl, eins af forsprökkum skálda- og listamannahópsins Nýhil, á stöðu íslenskrar ljóðlistar sem lesa má í formála bókarinnar Af ljóðum (2005). Í skilgreiningu Eiríks á „ömurlegri“ ljóðlist felast ábendingar um það hvernig ljóðlist hættir til að frjósa föst í viðtekinni fagurfræði þar sem aðferðir og form verða að venjum sem úthýsa tilraunum og þróun. Þetta eru stór orð, einhver kynni að segja ósanngjörn því skilgreininguna má vafalaust heimfæra uppá bróðurpart þess sem ort er, bæði það sem er almennt viðurkennt sem skáldskapur og hitt sem lendir utan garðs.

Það er hæpið að líta á formála Eiríks sem einhverskonar stefnuyfirlýsingu Nýhil hópsins en orð hans eru þrátt fyrir það lýsandi fyrir gagnrýna afstöðu Nýhil til samtímaljóðlistar. Hópurinn starfar ekki út frá ákveðnu manífestói eða fastmótaðri fagurfræði a.m.k. hefur ekkert slíkt birst opinberlega og erfitt gæti reynst að finna ákveðna fagurfræðilega línu sem ætti við hópinn í heild sinni. Ef eitthvað er hefur Nýhil frekar skotið sér undan skilgreiningum og í stuttu máli er hópurinn ekki eitt heldur margt. Nýhilskáldin hafa vakið athygli með eigin útgáfum undir merkjum Nýhil en sum þeirra hafa einnig gefið út hjá stærri forlögum. Þar á meðal eru Eiríkur Örn Norðdahl, Kristín Eiríksdóttir, Steinar Bragi (sjá Nordisk litteratur 2003 bls. 20-22), Ófeigur Sigurðsson og Óttar Martin Norðfjörð. Þótt ljóðabókaútgáfa sé fyrirferðamest hefur Nýhil einnig gefið út skáldsögu, DVD diska, hljómorðadisk sem hefur að geyma tónlist og þýðingu á Howl eftir Allen Ginsberg, að ógleymdum Af bókunum sem eru safnrit með greinum og skáldskap þar sem tekið er á brennandi málefnum samtímans. Þrjár slíkar bækur hafa komið út. Af stríði, um Íraksstríðið, Af okkur, um þjóðerni og hnattvæðingu og Af ljóðum, um ljóð. En eru ljóð þá eitt af brennandi málefnum samtímans? Um það má örugglega deila en í öllu falli er ljóðið komið rækilega á dagskrá í íslenskri menningarumræðu eins og sést á því að tvisvar á síðustu árum hefur eitt víðlesnasta dagblað Íslands staðið fyrir ljóðasamkeppni þar sem sigurvegari er kosinn með sms skilaboðum. Það er reyndar áhugavert að þetta skuli gerast þrátt fyrir sífellt andlaust suð um dauðdaga ljóðsins, sem t.a.m. birtist í spurningum blaðsins til keppenda þar sem eina ferðina enn var spurt: „er ljóðið dautt?“

IMG_6028
Fyrsta opna greinarinnar í Nordisk Litteratur.

Viðbragð Nýhilliða við íslenskri ljóðaumræðu tengist þessum andlausu endurtekningum um dauðdaga ljóðsins þar sem umræðan virðist sitja föst í dauðatals hjólförunum án þess að bifast. Ljóðasamkeppni dagblaðsins er dæmi um það hvernig ljóð komast í kastljósið án þess að það takist að hefja umræðuna upp fyrir dauðatalið. Það má líka líta á keppnina sem dæmi um það hve ríkjandi hið hefðbundna fágaða móderníska ljóðform er, því mörg ljóðanna í keppninni má setja undir þann hatt. Dauðaspurningin mætti e.t.v. frekar snúast um það hvort hið hefðbundna móderníska ljóðform sé gengið sér til húðar. Hvort það eigi erindi við samtímann rétt eins og spurt var þegar háttbundin ljóð svörðuð ekki lengur kalli tímans á síðustu öld.

Alþjóðleg ljóðahátíð í Reykjavík

En ljóðið er á dagskrá og Nýhil hefur sannarlega átt sinn þátt í að vekja upp umræðu um það á margvíslegan hátt. Bókin Af ljóðum kom út í tengslum við stærsta viðburð Nýhil til þessa en síðsumars árið 2005 gekkst hópurinn fyrir Alþjóðlegri ljóðahátíð í Reykjavík sem stóð yfir í tvo daga. Hátíðin og bókin voru í raun viðbragð við þeim hnút sem Nýhilliðar telja ljóðlistina vera í. Eins og fram hefur komið hér að framan hefur gagnrýni þeirra einkum beinst að því hve stöðnuð umræðan um skáldskap er oft og tíðum og í hve litlu samspili umræðan og ljóðagerðin sjálf eru við það sem er að gerast í samtímaskáldskap annarsstaðar. Þetta er hressileg gagnrýni og áreiðanlega holl, sérstaklega þegar gagnrýnendurnir sjálfir bregðast beinlínis við ástandinu. Þótt Nýhilliða hafi fyrst og fremst beint spjótum sínum að íslenskri umræðu, þá nær gagnrýnin lengra og á e.t.v allt eins við stöðu ljóðsins annarsstaðar þ.á m. á Norðurlöndunum. Alþjóðlega ljóðahátíð Nýhil var einmitt tilraun til að rjúfa einangrun ljóðsins með því að kalla saman ljóðskáld af Norðurlöndunum og úr enskumælandi löndum.

Á meðan á ljóðahátíðinni stóð fór fram fjölmenn tónlistarhátíð í Reykjavík þar sem fjöldi íslenskra og erlendra tónlistarmanna komu fram. Það er áhugavert að velta rokktónlist og ljóðlist fyrir sér í samhengi. Rokktónlist berst hratt og örugglega á milli landa, hana þarf ekki að þýða því skilningur hennar er handan tungumálsins. Vandi ljóðlistarinnar felst að nokkru í því hve illa hún berst á milli landa og málsvæða. Samtímaljóðaþýðingar eru í lágmarki og viðburðir á borð við alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhil heyra til undantekninga. Tungumálið er miðill ljóðsins og um leið stærsta hindrun þess hvað útbreiðslu varðar. En það getur eitthvað meira falist í ljóðum en aðeins bókstafleg merking orðanna, svipað og á við rokktónlist sem klárlega virkar handan tungumálsins. Þetta kom berlega í ljós á Alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhil. Flutningur kanadíska skáldsins Christian Bök á verkum sínum sýndi að ljóð geta virkað samtímis á plani tungumálsins og handan við orðin sjálf og hið sama má segja um flutning sænsku skáldkonunnar Önnu Hallberg. Þessi hluti ljóðlistarinnar, þ.e. fluttningurinn og hið lifandi samband áhorfenda og flytjenda, virkni ljóðsins handan við textann og handan við tungumálið, hefur verið eitt megin einkenni Nýhil frá upphafi. Áhorfendur á Nýhil upplestrum eru t.d. iðulega hvattir til framíkalla og óláta.

Einangrun ljóðlistar er örugglega ekki séríslenskt fyrirbæri og e.t.v. er ekki eðlilegt að bera ljóðlist og rokktónlist saman hvað útbreiðslu og áhrifamátt varðar en umrædd hátíð sýndi samt vel hve mikilvægt er að opna brautir fyrir samtímaljóðlist á milli landa. Hún sýndi reyndar líka að það er áhugi á ljóðlist því þegar best lét voru vel á þriðja hundrað manns á hátíðinni og fólk var á hlaupum á milli tónlistarhátíðarinnar og ljóðahátíðarinnar alla helgina. Auk Christian Bök komu enskumælandi skáldin Billy Childish og Jesse Ball fram sem hver á sinn hátt opnuðu glufu inn í annan ljóðheim en almennt þekkist á Íslandi. Glufa opnaðist einnig til hinna Norðurlandanna því auk Önnu Hallberg komu fram Catharina Gripenberg frá Finnlandi, og Lone Hørslev frá Danmörku. Það er reyndar sérstaklega furðulegt hve lítið af skáldskap ungra skálda berst á milli Norðurlandanna.
Í tengslum við hátíðina var haldið málþing þar sem umræðuefnin voru annars vegar íslensk samtímaljóðlist og hins vegar framúrstefna og jaðarmenning. Í heild má segja að málþingið hafi snúist um möguleika og erindi ljóðlistar í samtímanum. Þessi umræðuefni eru einmitt það sem Nýhil snýst að stórum hluta um – möguleika ljóðsins og tilraunir um ljóðið. Nýhil er stöðugt að leita nýrra leiða til að bregðast við þeim aðstæðum sem hópurinn hefur gagnrýnt. Það sést t.a.m. á nýjustu ljóðabókaútgáfu Nýhil sem ber hvorki meira né minna en titilinn Norrænar bókmenntir. Bókaflokkurinn samanstendur af níu bókum og kom út í tvennu lagi, fjórar bækur haustið 2005 og fimm á vordögum 2006. Í bókaflokknum er að finna athyglisverð verk sem láta reyna á mörk og möguleika ljóðsins, út úr þeim má jafnvel lesa spurninguna: hvað er ljóð? Í þessu samhengi má nefna bók Óttars Martin Norðfjörð Gleði og glötun þar sem textum og myndum er blandað saman á þann hátt að bókin stendur á mörkum ljóðlistar, myndlistar, myndasögu og jafnvel dagblaðs. Bók Eiríks Arnar Norðdahl Blandarabrandarar (die Mixerwitze) er einnig athyglisverð tilraun þar sem róttækar „cut-up“ aðferðir eru notaðar til að yrkja ljóð sem sum hver standa á mörkum hins skiljanlega á meðan önnur varpa nýju ljósi á kunnuglegt tungutak með því að setja það í nýtt samhengi.

Íslandsmeistaramót í ömurlegri ljóðlist

Síðastliðinn vetur stóð Nýhil svo fyrir enn einum viðburðinum sem má líta á sem viðbragð við ástandinu. Að þessu sinn í formi ljóðasamkeppni sem kemur á vissan hátt í beinu framhaldi af umræðu Eiríks í formála bókarinnar Af ljóðum. Samkeppnin hét „Íslandsmeistaramót í ömurlegri ljóðlist“ og gafst fólki færi á að skila inn eins ömurlegum ljóðum og því frekast var unnt að yrkja. Viðbrögðin létu ekki á sér standa því fjöldi ljóða bárust sem voru að sögn hvert öðru ömurlegra. Keppnin vakti mikla athygli, sjö verstu ljóðin birtust í dagblaði og þrjú þeirra voru svo flutt í Ríkissjónvarpinu um leið og versta ljóðið var verðlaunað. Með keppninni náði Nýhil að vekja athygli á því staðnaða myndmáli og tungutaki sem gagnrýni þeirra hefur beinst að. Keppnin var því eins konar könnun á fagurfræðilegri afstöðu til ljóða. Hún knúði þátttakendur og lesendur ljóðanna til að velta fyrir sér spurningunni: „hvað er ömurlegt ljóð?“ Í þeirri spurningu felst einnig spurningin um hvað gott ljóð sé og í hverju staðlað og klisjukennt myndmál felst. Á meðan slíkar spurningar eru á lofti, þ.e. grundvallarspurningar um ljóðlist, er kannski ekki hætta á að íslensk ljóðlist festist í hjólförum ömurleikans.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s